23. júl. 2021

Rekstrarafkoma fyrri hluta ársins 2021 – metárangur

Í dag fögnum við besta hálfsársárangri okkar þegar litið er til sölu og hagnaðar í allri 94 ára sögu okkar.

Við slógum nýtt met á fyrstu sex mánuðum ársins hvað varðar sölu, sem var knúin af mikilli eftirspurn eftir jeppum og Recharge-rafbílunum okkar. Í dag tilkynnum við með ánægju að góður árangur okkar hefur einnig skilað sér í góðri rekstrarafkomu.


Í stuttu máli var salan á fyrri hluta ársins þessi: Við seldum 380.757 bíla um allan heim. Þetta er besti árangur á hálfu ári í sögu fyrirtækisins. Þetta er 41 prósent aukning frá árinu 2020, sem heimsfaraldurinn setti mark sitt á – og einnig náði fyrirtækið 12 prósenta vexti frá fyrstu sex mánuðum ársins 2019 – sem er meira viðeigandi samanburður þar sem heimsfaraldur setti ekki strik í reikninginn. Sala okkar á 12 mánuðum er um það bil 775.000 bílar, rétt undir 800.000 bíla markmiðinu sem við settum fyrir 10 árum.


Salan á öllum þessum nýju bílum skilaði tekjum upp á 141 milljarð SEK, sem er 26,3 prósenta aukning. Þessi góða sala og tekjur skiluðu sér einnig í meiri hagnaði, sem jókst enn frekar vegna hagræðingar og jákvæðra niðurstaðna hjá tengdum fyrirtækjum okkar. Hagnaður upp á 13,2 milljarða SEK er sá besti sem við höfum nokkru sinni náð fyrir hálft fjárhagsár. Framlegð af rekstri var 9,4 prósent.


Ekki gekk þó allt að óskum: Skortur á hálfleiðurum í heiminum var mikil áskorun á fyrri helmingi ársins. En við aðlöguðum framleiðsluna og breyttum forgangsröðuninni í samræmi við kröfur viðskiptavina í öllum verksmiðjum, sem þýddi að við gátum dregið úr áhrifum þessa á afhendingar til viðskiptavina.


„Fyrirtækið hélt áfram að vaxa og dafna þrátt fyrir skortinn á hálfleiðurum sem hafði áhrif á allan bílaiðnaðinn í heild sinni, en það sem meira máli skiptir er að við náðum að sýna fram á að við erum í fararbroddi þeirra umbreytinga sem nú eiga sér stað í bílaiðnaðinum,“ sagði Håkan Samuelsson, framkvæmdastjóri Volvo Cars.

„Hagnaður upp á 13,2 milljarða SEK er sá besti sem við höfum nokkru sinni náð fyrir hálft fjárhagsár“

Allan fyrri hluta ársins tókum við líka fleiri skref í átt að rafmagnaðri framtíð okkar. Recharge-bílar eru nú fjórðungur allra bílanna okkar, sem þýðir að við erum í forystu meðal framleiðenda hefðbundinna lúxusbíla þegar kemur að hlutdeild rafbíla í sölu.


Sem hluta af umbreytingunni yfir í rafvæðingu settum við annan rafbílinn okkar á markað, Volvo C40 Recharge. Á sama tíma styrktum við netsöluáætlun okkar til að koma til móts við breytta hegðun neytenda. Héðan í frá verða allir rafbílar eingöngu í boði á volvocars.com, og viðskiptavinir geta pantað þar sem þeim hentar, til dæmis heima hjá sér, í Volvo-stúdíói eða hjá söluaðila. Við erum með netsölu á nokkrum markaðssvæðum þar sem boðið er upp á gagnsæ og sveigjanleg tilboð fyrir neytendur, þar á meðal pakka fyrir þjónustu, viðhald og tryggingar. Aðsókn að áskriftartilboði Volvo Cars, Care by Volvo, hefur fimmfaldast á fyrstu sex mánuðum ársins í fleiri en 10.000 samninga.


Lykilatriði í umbreytingum fyrirtækisins er að tryggja sjálfbærar rafhlöður. Því hefur Volvo Cars í hyggju að ganga til liðs við Northvolt við þróun og framleiðslu nýrrar kynslóðar rafhlöðueininga.

Til að tryggja að áhersla verði lögð á rafvæðingu erum við einnig að færa brunahreyflastarfsemi okkar í nýja deild, Aurobay, sem Geely Holding verður aðalhluthafi í. Í gegnum Aurobay mun Volvo Cars ná samlegð og tryggja framboð á samkeppnishæfum brunahreyflum fyrir hybrid-aflrásirnar okkar þangað til fyrirtækið verður orðið rafvætt að fullu.


Í maí tilkynnti stjórnin að verið væri að meta hugsanlegt opinbert frumútboð á Nasdaq í Stokkhólmi. Matsferlið heldur áfram.


Håkan Samuelsson sagði: „Volvo Cars á áratugarlangan feril að baki í vel heppnaðri umbreytingu. Bílaiðnaðurinn tekur nú meiri breytingum en nokkru sinni fyrr og við erum staðráðin í að vera fljótust að breytast í samræmi við það.“

Deila