Það gekk mikið á árið 2023 en það var engu að síður eftirminnilegt. Við skulum líta til baka og rifja upp það sem gerðist hjá Volvo Cars.
Grár EX90 með farangursgeymslu fulla af jólagjöfum fyrir framan jólatré.
2023 var ótrúlegt ár! Við kynntum til sögunnar nokkra nýja rafbíla, við lögðum í mikilvægar fjárfestingar til framtíðar, tókum afgerandi skref í tengslum við sjálfbærnimarkmið okkar og upplifðum aukna sölu. Allt þetta átti sér síðan stað á miklum umrótatímum með ýmsum áskorunum í ytra umhverfi. Þetta leggur góðan grunn fyrir árið 2024, sem kemur til með að vera mikilvægur tími í yfirstandandi umbreytingum á rekstri fyrirtækisins.
Byrjum á því að skoða nýju fallegu bílana. Í júní kom á markað hinn smái en kraftmikli SUV-rafbíll, EX30. Áður en EX30 komst í hendur viðskiptavina okkar hafði hann fengið frábæra umfjöllun í fjölmiðlum og unnið til verðlauna hjá alþjóðlegum bílatímaritum. EX30 hefur mikið til að bera í fyrirferðarlitlum umbúðum: sjálfbærari efni og hönnun, tæknilausnir sem gera lífið ánægjulegra og gott verð fyrir hágæðarafbíl.
Um haustið kynntum við svo til sögunnar fyrsta MPV-rafbílinn okkar. Volvo EM90 er hægt að líkja við skandinavíska stofu á hjólum þar sem þægindi og íburður sameinast þeim gæðum sem viðskiptavinir Volvo Cars eiga að venjast. Bæði EX30 og EM90 færa vörumerkið okkar yfir í nýja flokka bíla og stækka hóp mögulegra viðskiptavina.
Árið 2023 var ár vaxtar.
Afhjúpun EX30 og EM90 átti sér stað um leið og vinsældir bílanna okkar jukust. Nóvember síðastliðinn var fimmtándi mánuðurinn í röð sem sýndi aukna sölu og hlutur okkar í sölu rafbíla er 16 prósent, til marks um að við erum á réttri leið. Við tökum þessari þróun fagnandi og sjáum fyrir okkur að hún haldi áfram á komandi árum þegar við kynnum til sögunnar fleiri nýja bíla og stefnum ótrauð að því markmiði að selja eingöngu rafbíla árið 2030.
Nýju rafbílarnir okkar kölluðu á miklar fjárfestingar en við höfum einnig fjárfest í framtíðinni á annan máta. Svo dæmi sé tekið krefjast allir þessir nýju bílar innviða til að koma þeim á markað og af þeim sökum erum við að reisa nýja framleiðsluverksmiðju í Slóvakíu. Við hófum einnig byggingu nýrrar verksmiðju til að framleiða rafhlöður í Svíþjóð og er hún hluti af samstarfi okkar við Northvolt í þróun og framleiðslu á rafhlöðum.
Í heimaborg okkar, Gautaborg, erum við búin að opna hugbúnaðarprófunarmiðstöð, auk þess sem við höfum bætt við tæknimiðstöðvanet okkar tveimur nýjum tæknimiðstöðvum í Kraká og Singapúr, þar sem áhersla er lögð á hugbúnaðarþróun. Við erum að fjárfesta í hugbúnaðarþróunardeild fyrirtækisins vegna þess hversu mikilvægt er að hafa stjórn á hugbúnaði bílanna okkar til að ná viðskiptaáformum okkar og skapa betri upplifun fyrir viðskiptavinina.
Aðrir hápunktar ársins eru meðal annars yfirstandandi breytingar á rekstri okkar þar sem verið er að endurhugsa markaðssetningu bílanna okkar og hleypa af stokkunum nýrri rekstrareiningu sem gengur undir heitinu Volvo Cars Energy Solutions. Allt er þetta mikilvægt fyrir framtíðaráætlanir okkar og 2024 verður einnig mikilvægt hvað snertir umbreytingar í rekstri okkar.
Árið 2024 verður það fyrsta í sögu fyrirtækisins þar sem kynntir verða til sögunnar þrír nýir rafbílar með öllum nýjasta tæknibúnaðinum. EX30 og EM90, sem og SUV-lykilgerðin, EX90, eru ekki aðeins táknmyndir framtíðar fyrirtækisins heldur gera þeir okkur einnig kleift að víkka markhópinn fyrir bílana okkar út í þrjá nýja flokka bíla.
Þeir eru einnig mikilvægur þáttur í viðbrögðum okkar við loftslagsbreytingum. Með því að snúa okkur alfarið að framleiðslu hugbúnaðarvæddra rafbíla fjárfestum við í tækni framtíðarinnar og kveðjum tækni gærdagsins. EX30 er hannaður með það í huga að skila minnsta kolefnisfótspori allra Volvo-bíla frá upphafi, auk þess að vera tákn um hvert við stefnum í loftslagsaðgerðum.
Líkur eru á áframhaldandi þjóðhagslegum óstöðugleika og óvissu á árinu 2024. Við erum þrátt fyrir það tilbúin að takast á við þær áskoranir og munum halda okkar stefnu. Með því að reiða okkur á einstakan tilgang, menningu og gildi Volvo munum við tryggja að allt starfsfólk fyrirtækisins standi saman og stefni í sömu átt. Í flóknum heimi sem breytist hratt veitir sameiginlegur tilgangur og menning okkur frelsi til að vera skapandi, til að nýta orkuna sem liggur í samvinnunni, til að gera hlutina öðruvísi og, umfram allt, betur.
Þannig erum við meira en tilbúin að takast á við árið 2024, þrátt fyrir allt sem á gekk 2023. Við viljum þakka öllu okkar samstarfsfólki fyrir alla þá vinnu sem það hefur lagt á sig á þessu ári. Volvo Cars óskar ykkur öllum gleðilegrar hátíðar.