Bréf frá nýja forstjóranum, Jim Rowan: Við vinnum öll sem eitt

Fyrsta daginn í starfi sem forstjóri Volvo Cars deilir Jim Rowan hugleiðingum sínum um nýja hlutverkið, fyrirtækismenninguna og framtíð bílaiðnaðarins.

Jim Rowan gengur til liðs við Volvo Cars sem forstjóri.

Jim Rowan gengur til liðs við Volvo Cars sem forstjóri.

Hej öll!


Nýr kafli hefst í lífi mínu í dag. Og ég er ótrúlega spenntur yfir því. Að geta gengið til liðs við Volvo á þessum tímapunkti, þegar stórtækar umbreytingar eiga sér stað, er mjög hvetjandi.


Þegar fólk spyr mig: „Hvers vegna gekkstu til liðs við Volvo?“ svara ég þessu. Ég er bara mjög spenntur fyrir tækifærinu. Að vera hluti af sameiginlegri vegferð okkar á komandi árum, að vinna með ykkur öllum og skapa fyrirtæki sem er í forystu nýrrar kynslóðar í samgöngum og fara með fyrirtækið á áður óþekktar slóðir er nokkuð sem ég hlakka mikið til.


Þó að ég sé mikill áhugamaður um verkfræði og tækni er ég ekki hefðbundinn bílakall. Ég held að það komi sér vel. Hjá Volvo starfar fullt af fólki sem þekkir bílaiðnaðinn út og inn og býr yfir allri þeirri hæfni sem skiptir máli. Það er ekki þörf á mér á því sviði!


Það sem ég vona að ég geti fært með mér er innsýn og reynsla úr hátæknigeiranum í framleiðslu neytendavarnings þegar við skiptum yfir í samgöngur fyrir næstu kynslóð. Ef við blöndum þessu saman við hæfileikana og þekkinguna sem við höfum byggt upp innan Volvo síðustu 95 árin og setjum það rétt saman held ég að sú samsetning verði afar kröftug.


Saga okkar og arfleifð verður alltaf til staðar. Fólk treystir Volvo-vörumerkinu og veit að það stendur fyrir áreiðanleika og heiðarleika. Enginn getur líkt eftir því. En orðfæri og væntingar til næstu bílakynslóðar eru að breytast. Áður snerist allt um hestöfl og strokka. Nú er allt farið að snúast meira um innbyggða tækni sem auðveldar viðskiptavinum okkar lífið og eykur þægindi. Orðfærið höfðar núna til allra og ber vitni um framsækna hugsun, sem er gott.

Saga okkar og arfleifð verður alltaf til staðar. Fólk treystir Volvo-vörumerkinu og veit að það stendur fyrir áreiðanleika og heiðarleika. Enginn getur líkt eftir því. En orðfæri og væntingar til næstu kynslóðar bíla eru að breytast.

Markmið okkar lýsir þessu mjög vel: Við ætlum að bjóða fólki upp á frelsi til að ferðast um á öruggan, sjálfbæran og persónulegan hátt. Kolefnislausar samgöngur og ábyrgð á að þær verði að veruleika er einkar hvetjandi. Það er ekki bara það sem er rétt fyrir Volvo, heldur, og það sem meiru skiptir, það sem er rétt fyrir samfélagið.

Þetta er tækifæri okkar til að sýna að við tökum öryggi fólks jafnalvarlega og við tökum öryggi plánetunnar. Þetta tvennt hefur aldrei skipt meira máli en nú og við munum leitast við að gera enn betur í þessum efnum. Nálgun okkar við að ná 100% rafvæðingu og leita öruggra leiða til að innleiða sjálfvirkan akstur hefur náð til alls fyrirtækisins og saman munum við ná þessum markmiðum. En í næstu kynslóð bíla held ég einnig að persónulegi þátturinn muni skipa stærri sess en nokkru sinni fyrr. Bein tenging við viðskiptavini okkar verður afar mikilvæg til að ná sjálfbærum og arðbærum vexti og auka virði vörumerkisins okkar.


Þegar þú kaupir eða færð þér áskrift að Volvo færðu enn sem fyrr öflugan, áreiðanlegan og öruggan hágæðabíl. Það breytist aldrei: Við ætlum stöðugt að fjárfesta í og skapa nýjungar á öllum lykilsviðunum sem við höfum byggt upp áratugum saman. Ef við aftur á móti bætum við þetta fordómalausri og hnökralausri Volvo-upplifun fyrir viðskiptavini okkar getum við gert vörumerkið að fyrsta vali þeirra alla ævi. Ferðamáti sem ekki bara verndar þig, ástvini þína og umhverfið, heldur veitir líka ánægju, þægindi og algjöra hugarró.Að endingu langar mig að segja nokkur orð um fyrirtækjamenninguna okkar. Traust skiptir mig miklu máli. Mig langar til að þetta sé fyrirtæki sem treystir starfsfólki sínu fyrir vinnunni, þar sem allir eiga jöfn tækifæri, þar sem starfsfólkið er hvatt til að nota eigin dómgreind og færni til að ná lykilmarkmiðum okkar.


Það þýðir einnig að við erum fyrirtæki sem hefur áunnið sér traust starfsfólksins. Fyrirtæki sem er til staðar þegar þið þurfið á stuðningi að halda, hver sem ástæðan er. Og ef eitthvað fer úrskeiðis vil ég að öllum finnist þau örugg til að láta vita og leita aðstoðar og leiðsagnar til að leysa vandamálið. Við vinnum öll sem eitt: Enginn bendir á annan, enginn kennir öðrum um, við einbeitum okkur bara öll að sama markmiði.


Jæja, ég er búinn að tala nóg. Þið þurfið kannski að sýna mér örlitla þolinmæði á næstu vikum á meðan ég er að setja mig inn í hlutina, en ég stefni á að heimsækja allar starfsstöðvar okkar og komast fljótt inn í starfið. Ég hlakka til að hitta ykkur og hefja þetta ævintýri með ykkur.


Jim

Deila