7. júl. 2023

Smár en þó knár: rafmagnssportjeppinn Volvo EX30!

Sem lítill jeppi sem afrekar mikið að hætti Volvo er nýi Volvo EX30-rafbíllinn hannaður til að vera eins öruggur og vænta má af Volvo. Hann er hannaður til að hafa minnsta kolefnisspor allra Volvo-bíla til þessa og til að auka öryggi, þægindi og ánægju fyrr tilstilli nýjustu tækni og norrænnar hönnunar.

EX30 var frumsýndur í Mílanó í dag og hægt er að panta hann á völdum markaðssvæðum. Þetta er fyrsti litli fyrsta flokks rafmagnssportjeppinn okkar og með honum bjóðum við nú fjórar gerðir alrafknúinna bíla. Markaðurinn þróast ört í átt að algjörri rafvæðingu og EX30 mun hjálpa okkur að koma til móts við ört vaxandi eftirspurn eftir rafbílum.


Hagstætt verðið á EX30, frá u.þ.b. 36.000 evrum, þýðir að viðskiptavinir okkar geta fengið rafmagnssportjeppa sem kostar álíka mikið og sambærilegir bílar með brunahreyfli. EX30 fæst einnig með Care by Volvo-áskriftarpakkanum, þar sem fast verð og gagnsætt pöntunarferli tryggja að það er leikur einn að panta.

„Þótt EX30-rafbíllinn sé minnsti jeppinn okkar frá upphafi skiptir hann heilmiklu máli fyrir viðskiptavini okkar og fyrir okkur sem fyrirtæki,“ segir forstjórinn Jim Rowan. „EX30 er knár þótt hann sé smár þar sem honum fylgir allt sem maður vill frá Volvo, bara í minni pakka. Eins og allt frá Volvo er þetta framúrskarandi vara sem er örugg og miðuð við fólk og þarfir þess.“

Í EX30 birtast öll hönnunargildin okkar á smærra sniði. Langt hjólhaf, stór hjól og jöfn skögun ljá ytra byrðinu jafnt og fágað yfirbragð. Útlitið ber sterk merki rafbíla, með afgerandi framsvip, lokaðri hlíf og stafrænni útfærslu á einkennandi aðalljósunum. Fimm kraftmiklir litir fyrir ytra byrði, allt frá glæstum Cloud Blue til bjarts og frískandi Moss Yellow – sem vísar til klettagróðurs á vesturströnd Svíþjóðar – ljá bílnum einstakt yfirbragð og einkenni.


Rafhlöðutækni sem hentar þínum þörfum

Tölum aðeins um rafhlöðutæknina okkar. Í fyrsta lagi er ekkert sem heitir bara „rafhlaða“ þegar aflrásir eru annars vegar. Þess í stað færðu frelsi til að velja rafhlöðutæknina sem hentar þínum þörfum best. Þannig bjóðum við upp á EX30 með þremur aflrásarmöguleikum og tveimur mismunandi rafhlöðutegundum, sem gerir okkur einnig kleift að bjóða hagstætt innflutningsverð á EX30.


Ef þú ert mest innanbæjar, eða ferðast gjarnan styttri vegalengdir á milli hleðslna, bjóðum við eins mótors aflrás með LFP-rafhlöðu. LFP-rafhlaða fyrir hefðbundna drægna, þar sem notast er við lítíumjárnfosfat, er hagkvæmari í framleiðslu og útheimtir minni auðlindanotkun og er því besti kosturinn ef þú þarft ekki hámarksdrægni.


Ef þú vilt hámarka drægnina er EX30 með Single Motor Extended Range-útfærslunni og NMC-rafhlöðu með meiri drægni rétti kosturinn fyrir þig. NMC-rafhlaðan inniheldur litíum, nikkel, mangan og kóbalt og framleiðir orku á skilvirkari hátt en LFP-gerðin. Með þessum kosti geturðu ekið allt að 480 km milli hleðslna.


Svo ef afköst eru forgangsatriði skaltu velja Twin Motor Performance-útfærsluna þar sem NMC-rafhlaða er pöruð við aukarafmótor. Þessi All-wheel Drive-útfærsla af EX30 býður upp á 315 kW (428 hö.) og hraðaaukningu úr 0 í 100 km/klst. á 3,6 sekúndum – sem er mesta hraðaaukning í öllum bílum okkar frá upphafi!


Hraðinn ræður líka ríkjum í hleðslu EX30. Twin Motor-útfærslan með mikilli drægni er með allt að 153 kW hleðslugetu en hún er 134 kW í bílum með staðlaða drægni. Það þýðir að þú getur hlaðið rafhlöðuna úr 10 í 80 prósent á rétt rúmlega 25 mínútum. Á miðskjá bílsins og í forritinu má sjá straumstyrk, hámarkshleðslustig og hvenær á að hefja hleðslu.


Til þess að stuðla að sem bestri akstursupplifun höfum við fínstillt undirvagn EX30 til að fullnýta nett ummál bílsins. Við lágan þyngdarpunktinn og tiltölulega litla og jafnt dreifða þyngd bætist léttur akstur og lipurð innan- og utanbæjar.


Minna kolefnisspor en þó mikil öryggisáhrif

Eins og fram hefur komið í fyrri færslum er EX30 hannaður til að hafa minnsta kolefnisspor allra Volvo-bíla til þessa og er þannig stigið mikilvægt skref fram á við í sjálfbærnimarkmiðum okkar. Með því að taka á útblæstri Volvo EX30 frá framleiðslu til förgunar, sem og efnisnotkun fyrir innanrými og ytra byrði, tókst okkur að halda kolefnisspori bílsins undir 30 tonnum* á hverja 200.000 km af akstri*.


EX30 er jafnframt hannaður til að vera eins öruggur og vænta má af Volvo-bíl, til góðs fyrir bæði þig og aðra í erli borgarlífsins. Á meðal staðalbúnaðar er til dæmis sérstakur öryggisbúnaður til að koma í veg fyrir „hurðaslys“ sem varar þig við ef þú ætlar að opna dyr í veg fyrir aðvífandi hjólreiðamann, rafskútu eða skokkara.


Öryggistæknin okkar er enn eitt merkið um þær miklu öryggiskröfur sem við gerum til þessa nýja rafmagnssportjeppa. Hann er með fyrsta flokks árekstrarvarnartækni og framúrskarandi hönnun yfirbyggingar sem uppfyllir metnaðarfullar öryggiskröfur okkar – þar sem markmiðið er að undirbúa bílana okkar fyrir raunverulegar aðstæður.


EX30 miðar einnig að því að gera líf þitt þægilegra, afslappaðra og skemmtilegra inni í bílnum með háþróaðri tækni og úthugsaðri skandinavískri hönnun. Þú getur valið á milli fjögurra útfærslna fyrir innanrýmið, sem hver hefur sín einkenni, auk þess sem boðið er upp á snjallgeymslulausnir um allt farþegarýmið.


Notendaviðmótið hverfist um einn skjá með innbyggðri Google-leit og nýjustu útgáfu upplýsinga- og afþreyingarkerfis okkar. Allir þessir eiginleikar bera vott um sanna Volvo-hönnun.


Talandi um nýjustu tækni: Volvo EX30 er fyrsti bíllinn okkar með nýrri kynslóð af vinsæla Park Pilot Assist-eiginleikanum okkar. Eiginleikinn ræður við allar tegundir stæða, þar á meðal samhliða, sveigð, hornrétt og á ská, svo það er ekkert mál að leggja í þröng stæði.


Nýja Park Pilot Assist-kerfið finnur öll stæði sem bjóðast í grenndinni. Þegar þú hefur ýtt á stæðið sem þú vilt á nýja þrívíddarskjánum tekur kerfið við inngjöfinni og hemlunum, auk stýrisins. Á meðan þú hefur umsjón með bílastæðaferlinu sýnir skjárinn fjarlægðina frá hlutum á borð við bíla, veggi og götupolla í metrum eða fetum.


Eins og með alla Volvo-bíla unnum við náið með tæknifyrirtækjum á borð við Google, Apple og Qualcomm við þróun EX30 til að geta boðið upp á sem besta notendaupplifun. Við höfum líka unnið náið með ECARX í gegnum sameiginlega hugbúnaðarfyrirtækið okkar, HaleyTek, til þess að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á upplýsinga- og afþreyingarkerfi af bestu gerð.


Hugarró

Að sjálfsögðu fylgir EX30 líka stafrænn lykill, sem er bæði þægilegur fyrir þig og auðveldar þér að deila bílnum með öðrum. Tæknin okkar er byggð á háþróuðu UWB- og CCC-stöðlunum og verður samhæf við margvíslegar tegundir og gerðir síma.


Bílnum fylgir sérstakt app með allri þjónustu sem viðkemur bílnum, allt frá hleðslu og leit að bílnum á bílmörgu stæði til læsingar og upphitunar á köldum vetrardögum. EX30 getur líka tekið á móti þráðlausum hugbúnaðaruppfærslum sem bæta bílinn með tíð og tíma.


Þetta er þó ekki allt og sumt, í Volvo EX30 er líka hægt að velja á milli fimm ólíkra lýsingarþema. Hvert þema er innblásið af norrænu landslagi og með fínlegum litabreytingum svo kyrrð og ró ríkir í innanrýminu.


EX30 verður fullur af litum að þínu vali, hvort sem þú kýst hlýlegt sólarljós sem brýst í gegnum laufin í norrænum skógi, sólsetur við vesturströnd Svíþjóðar, norðurljósin heimsfrægu, gylltan sænskan sumarhimin eða frísklegt sólarlag í borginni. Auk þess er hægt að para lýsingarþemun við tiltekna hljóðmynd.


Brunað um sveitirnar með stíl

Að lokum erum við með óvænt tíðindi. Frá og með næsta ári fæst EX30 líka í Cross Country-útfærslu. Opnað verður fyrir pantanir á þessari sérstöku útgáfu af rafmagnssportjeppanum knáa árið 2024 og búist er við að framleiðsla hefjist síðar það ár.


Volvo EX30 Cross Country byggist á langri Cross Country-arfleifð okkar, rómuðum gerðum fyrir viðskiptavini sem vilja fá aðeins meiri ævintýri út úr bílnum. Með honum fylgir úrval sérstakra eiginleika, svo sem meiri fjarlægð frá jörð, 19 tommu svartar álfelgur og val um 18 tommu felgur ásamt meðfylgjandi hjólbörðum.


Þegar þú ferð með EX30 Cross Country á ótroðnar slóðir þekkist hann á hlífðarplötunum að framan, á hliðunum og að aftan, sérstökum svörtum þiljum á framstuðaranum og skottlokinu og glæsilegu Cross Country-merki. Litli sænski fáninn á húddinu setur svo punktinn yfir i-ið.


Hér má sjá forstjórann Jim Rowan skoða nýja EX30-bílinn: https://www.youtube.com/watch?v=UBsPUpqSPFs


Smáa letrið

Deila