Vindorka beisluð fyrir sjálfbæra bílaflutninga

Sjáið hvernig við tökum þátt í að þróa fyrsta vindknúna bílaflutningaskip heims.

Sjálfbærir sjóflutningar

Ímyndið ykkur framtíð þar sem þúsundir rafbíla frá Volvo eru fluttir yfir Atlantshafið með sjálfbærri vindorku.

Einu sinni ultu alheimsviðskipti á seglskipum sem nýttu loftstreymi til að tengja saman heimsálfur og móta nýja veröld. Nú, árhundruðum síðar, erum við komin í heilan hring þar sem við nýtum aftur hina alltumlykjandi vindorku til að uppfylla þarfir okkar fyrir sjálfbæra orkugjafa.


Volvo Cars er meðal 11 samstarfsaðila sem hafa tekið höndum saman og nýtt sér nútímatækni og nýsköpun til að þróa Orcelle Wind – fyrstu vindknúnu ekjuna sem hönnuð er til að flytja fólks- og flutningabíla um úthöf. Skip af þessu tagi eru ætluð til að flytja fólks- og flutningabíla milli landa, til dæmis frá Evrópu til Bandaríkjanna.


Ímyndið ykkur framtíð þar sem þúsundir rafbíla frá Volvo eru fluttir yfir Atlantshafið með sjálfbærri vindorku. Þetta er mikilvægt því nútímasjóflutningar velta algjörlega á jarðefnaeldsneyti – þar sem sum skip brenna þúsundum lítra af dísilolíu á klukkustund – og kolefnislosun vegna flutninga á bílunum okkar á hlut í heildarlosun á endingartíma hvers bíls. Þannig að ef við ætlum að ná markmiði okkar um að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki fyrir 2040 skipta allir orsakaþættir máli.

„Orcelle-verkefnið er mikilvægt skref í átt að stórfelldum umskiptum þar sem vindorka gegnir lykilhlutverki,“ segir dr. Anna Karamigkou, verkefnastjóri hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Alþjóðlega ekjuflutningafyrirtækið Wallenius Wilhelmsen, sem er með höfuðstöðvar í Noregi, er verkefnastjóri verkefnisins og markmiðið er að Orcelle Wind hefji siglingar síðla árs 2026 eða snemma á árinu 2027. Orcelle Wind er fyrsta skipið í Oceanbird-verkefninu svokallaða, sem er fyrst og fremst fyrir vindknúin sjóför. Hugmyndin sýnir að það er fræðilega mögulegt að draga úr losun frá skipum um allt að 90 prósent ef allir losunarþættir eru samstilltir.


Wallenius Wilhelmsen og samstarfsaðilar í verkefninu – þar á meðal Volvo Cars – hafa tryggt fjármögnun frá Horizon Europe sem nemur alls 9 milljónum evra til að styrkja smíði á ekju. Horizon Europe er helsta fjármögnunaráætlun Evrópusambandsins fyrir rannsóknir og nýsköpun. Á næstu fimm árum kemur Orcelle Wind til með að verða að veruleika í öllum þáttum skipulagningar, smíði og reksturs vindknúins sjófars.


Orcelle Wind verður 220 metrar að lengd og rúmar yfir 7.000 bíla, auk þess að geta flutt búlkafarm og rúllubúnað.


Roger Strevens, sjálfbærnistjóri hjá Wallenius Wilhelmsen, lét hafa eftir sér: „Fjármögnunin frá Evrópusambandinu í gegnum Horizon Europe sýnir að hugmyndin stóðst skoðun þeirra sem halda um pyngjuna hjá ESB og að þau hafa trú á verkefninu.“


Hlutverk okkar sem samstarfsaðila er að koma með sjónarmið notenda. Við skoðum kröfur okkar um flutning á rafbílunum okkar og leggjum okkar af mörkum til að greina útfærslu aðfangakeðjunnar. Við þurfum líka sjálf að svara spurningum: hvernig við hyggjumst skipuleggja pantana- og dreifingarflæði þegar við þurfum að gera ráð fyrir viðbótartíma fyrir vindknúna sjóflutninga um leið og við leitumst við að uppfylla væntingar viðskiptavina.


ESB-styrkurinn skiptist á milli samstarfsaðilanna ellefu svo við getum öll lagt okkar af mörkum og vonandi skapað vettvang þar sem vindorka er skoðuð frá öllum sjónarhornum. Á meðal málefna sem tekin verða til skoðunar eru siglingaleiðir með tilliti til veðurs, skipahönnunar, skipulagningar aðfangakeðja, þjálfunar áhafna og uppsetningar prófunarbúnaðar á eldri skipum. Verkefninu er ætlað að búa Orcelle Wind undir flutninga í viðskiptaskyni.


ESB-verkefnið sameinar fjárfestingarnar sem þarf fyrir allsherjarprófanir og gagnasöfnun og hátæknibúnaðinn sem vindknúin sjóför útheimta. Auk fyrsta skipsins sem þróað verður munu samstarfsaðilarnir nota búnaðinn til að þróa frekari hönnun og áætlanir fyrir aðrar tegundir skipa sem notast við vindorkulausnina.


Dr. Anna Karamigkou, verkefnastjóri hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir: „Orcelle-verkefnið er mikilvægt skref í átt að stórfelldum umskiptum þar sem vindorka gegnir lykilhlutverki. Þar sem um er að ræða tækni sem skiptir máli fyrir hátt hlutfall skipa og sem getur dregið verulega úr losun frá sjóflutningum er ljóst að þetta verkefni hefur mikinn samfélagslegan ávinning í för með sér fyrir Evrópusambandið.“


Staffan Johannesson, sjálfbærnistjóri í aðfangakeðjunni okkar, segir að mögulegir kostir verkefna á borð við þetta, þar sem við tökum höndum saman við önnur fyrirtæki til að finna nýjar lausnir, séu gott dæmi um þörfina á fjölbreyttum leiðum til að draga úr kolefnislosun í allri starfsemi fyrirtækisins.


„Við erum stöðugt að leita leiða til að auka sjálfbærni í allri aðfangakeðjunni og raunar í öllum rekstri fyrirtækisins. Listinn yfir framtaksverkefnin okkar lengist stöðugt eftir því sem við komumst nær því að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki fyrir árið 2040.“


Frekari upplýsingar um Oceanbird-verkefnið: https://www.theoceanbird.com/the-oceanbird-concept/

Deila