Volvo EX30 rafbíllinn er hannaður til að skilja eftir sig minna kolefnisfótspor en allir aðrir Volvo bílar til þessa

Hinn nýi Volvo EX30 sameinar allt það besta við Volvo bíla. Fullkomlega rafknúinn smájeppi í takt við nútímann sem er hannaður með öryggi í fyrirrúmi og skilur eftir sig minna kolefnisfótspor.

EX30 sustainability

Hinn nýi EX30 er hannaður til að skilja eftir sig minna kolefnisfótspor en allir aðrir Volvo bílar til þessa.

Með því að taka á útblæstri Volvo EX30 frá framleiðslu til förgunar tókst okkur að halda kolefnisfótspori bílsins undir 30 tonnum* á hverja 200.000 km af akstri. Þetta er 25% minnkun frá C40 og XC40 rafbílunum okkar og jákvætt skref í átt að því markmiði okkar að draga úr heildarlosun koltvísýrings um 40% frá 2018 til 2025.


Þar sem Volvo EX30 er alfarið rafknúinn veldur hann engum útblæstri við akstur, sem stuðlar ekki aðeins að minna kolefnisfótspori heldur getur einnig haft marktæk áhrif á loftgæði. Til að mynda sýnir ný rannsókn frá háskólanum í Suður-Kaliforníu* að jafnvel smávægileg aukning á notkun rafbíla á tilteknu svæði hefur bein, jákvæð áhrif á tíðni heimsókna á bráðamóttöku vegna astma.


En rafvæðing ein og sér dugar ekki til að draga úr kolefnisfótspori bíls í heild sinni. Bíl er ekki aðeins ekið, heldur er hann einnig hannaður, þróaður, smíðaður og fluttur. Öll þessi skref bjóða upp á tækifæri til að draga enn frekar úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

„Hinn nýi EX30 er stórt skref í átt að sjálfbærnimarkmiðum okkar,“ segir Anders Kärrberg, yfirmaður sjálfbærnisviðs. „Fyrir árið 2025 stefnum við á að draga úr heildarlosun koltvísýrings fyrir hvern bíl um 40% miðað við tölur frá 2018, með því að draga úr heildarútblæstri við akstur um 50% og útblæstri frá starfsemi okkar, öflun hráefna og aðfangakeðju um 25%. Þetta er gert með markmið okkar um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 að leiðarljósi.

Alfarið endurunnin efni

Hvernig tókst okkur að lækka kolefnisfótspor Volvo EX30 um 75% í samanburði við hina rafbílana okkar? Þar sem bíllinn er smærri krefst hann minna efnis í framleiðslu. Ál og stál eru þau efni sem valda hvað mestri losun koltvísýrings í framleiðslu. Það býður upp á tækifæri fyrir okkur og þig, sem viðskiptavin, til að stuðla að breytingum.


Auk þess að nota minna af stáli og áli við smíði á nýja sportjeppanum notum við meira af endurunnum efnum. Um það bil fjórðungur af öllu áli sem er notað við smíði á Volvo EX30 er endurunnið. Það sama á við um u.þ.b. 17% af öllu stáli sem er notað í framleiðslu bílsins sem dregur enn frekar úr umhverfisáhrifum þessara efna.


Við nálgumst hönnun innanrýmisins á sama hátt, þar sem sjálfbærasta efnið er jú ekkert efni. Með hámarksnýtingu að leiðarljósi hefur hönnuðum okkar tekist að sameina marga eiginleika Volvo EX30 í einn. Þetta dregur úr fjölda íhluta sem er þörf á í innanrýminu án þess að skerða eiginleika.


Efnið sem við notum við smíði á Volvo EX30 stuðlar einnig að hönnun nýrra bíla á sjálfbærari hátt. Um það bil 17% af öllu plasti í bílnum eru endurnýtt, allt frá íhlutum í innra rými til stuðara á ytra byrði. Enginn Volvo-bíll til þessa inniheldur jafn mikið af endurnýttu plasti.


Annað skref í átt að kolefnishlutleysi

Annað mikilvægt svið þar sem hægt er að draga úr útblæstri er framleiðsluferlið og aðfangakeðjan, til dæmis með framboði á hreinni orku. Volvo EX30 verður smíðaður í verksmiðju sem er að mestu leyti knúin af kolefnishlutlausri orku, þ.m.t. 100% kolefnishlutlausri raforku.


Hvað varðar aðfangakeðjuna vinnum við með 1. flokks birgjum og 95% þeirra hafa skuldbundið sig til að nota 100% endurnýjanlega orku við framleiðslu fyrir árið 2025 og margir þeirra hafa þegar náð því markmiði. Þetta endurspeglar markmið okkar um að draga ekki eingöngu úr útblæstri í rekstri okkar heldur einnig hvetja samstarfsaðila okkar í aðfangakeðjunni til að gera slíkt hið sama.


Framleiðsluferlið á bak við Volvo EX30 hefur einnig verið straumlínulagað á ýmsan hátt. Sökum þess er bíllinn með eitt hæsta hlutfall efnisnýtingar í framleiðslu íhluta.


Á áframhaldandi vegferð okkar til að takast á við rekjanleika efna, sér í lagi hvað varðar framleiðslu á rafhlöðum í Volvo EX30, notum við blockchain tækni til að rekja mikilvæg hráefni, sem eru eins og er: litíum, mangan, kóbalt, grafít og nikkel.


Hagkvæmari og sjálfbærari efni

Við notum ýmis endurunnin og endurnýtanleg efni í sæti, mælaborð og hurðir í innanrýminu, þ.m.t. gallaefni, hör og ullarblöndur sem innihalda einnig um það bil 70% af endurunnu pólýester. Gallaefnið er einstaklega skýrt dæmi um hvernig við notum efni á hagkvæmari og sjálfbærari hátt.


Í gallaklæðningu innanrýmisins notum við afgangsþræði úr endurvinnslu gallaefnis sem annars hefðu farið til spillis. Þegar gallabuxur eru endurunnar er garn spunnið úr tættum þráðum og langir þræðir festir saman. Stuttir þræðir fara hins vegar oftast til spillis en við björgum þeim með því að nýta þá í gallaklæðningu innanrýmisins.


Niðurskurður án skerðingar

Allt þetta stuðlar að því að koltvísýringsáhrif bílsins frá framleiðslu til förgunar eru um 18 tonn. „Frá framleiðslu til förgunar“ lýsir koltvísýringsáhrifum allt frá uppgreftri hráefna til fullbúins bíls sem er sendur til söluaðila, þ.e. áður en hann er keyrður.

Við lok endingartímans er EX30 hannaður þannig að hægt sé að endurnýta 95% af honum með því að endurvinna efni og endurheimta þá orku sem eftir er.


Í stuttu máli veitir Volvo EX30 viðskiptavinum aukið svigrúm til að draga úr eigin koltvísýringsáhrifum án þess að skerða öryggi, akstursþægindi og hagkvæmni. Þetta er bæði jákvætt fyrir þig sem ökumann og umhverfið.


Nýr Volvo EX30 verður kynntur til leiks 7. júní og hægt verður að forpanta hann á völdum mörkuðum sama dag.


Smáa letrið

Deila